Innlent

Launakostnaður í fiskvinnslu 23 sinnum hærri hér en í Kína

Tuttugu og þrír kínverskir fiskvinnslustarfsmenn þiggja samanlagt jafnhá laun og einn starfsmaður í fiski á Dalvík. Launakostnaður í fiskvinnslu er með öðrum orðum orðinn tuttugu og þrisvar sinnum hærri á Íslandi en í Kína.

Það vakti athygli á dögunum þegar Samherji auglýsti eftir fólki í störf í fiskvinnslu á Dalvík á fjórum tungumálum. Launin eru rúmar 300 þúsund krónur á mánuði sem veltir upp spurningum um samkeppnishæfi landans gagnvart t.d. Kína, en æ stærri hluti fiskvinnslu hefur flust þangað síðustu ár.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að á Dalvík sé verið að borga 23 evrur á tímann. Í Þýsklandi kosti klukkutíminn 14 evrur og í Póllandi 3,5 evrur og Kína innan við eina evru. Þetta segi ýmislegt um samkeppnisstöðuna. Hann vill þrátt fyrir þetta ekki taka undir þær svartsýnisraddir að öll vinnsla á fiski hverfi úr landi.

En á sama tíma og laun fiskvinnslufólks eru sem dæmi á Dalvík á fjórða hundrað þúsund með bónus hafa sjómenn tekið á sig mikla kjaraskerðingu,.

Þorsteinn Már segir að það sé alvarlegast að laun sjómanna hafi lækkað um 20-30 prósentum síðastliðin fimm ár, mest á síðustu tveimur árum. Laun sjómanna séu tengd afurðaverði og gengi. Afurðaverð hafi hækkað en gengið hafi styrkst það mikið að laun sjómanna hafi lækkað verulega og það sé mikið áhyggjuefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×