Innlent

Fær ekki greidda tryggingu vegna fjölskyldusögu

Kona á fimmtugsaldri, sem sótti um sjúkdómatryggingu hjá KB líf, fær ekki greidda tryggingu ef hún greinist með MS þar sem móðir hennar hefur strítt við sjúkdóminn. Formaður samtaka MS-sjúklinga segir þetta hneyksli. Það sé nógu sárt að glíma við ólæknandi sjúkdóm, þótt manns nánustu sé ekki refsað fyrir það.

Fólk sem reykir er of feitt eða telst að öðru leyti lifa áhættusömu lífi getur átt von á því að þurfa að greiða sérstakt álag á iðgjaldið. Einnig falla þeir sjúkdómar ekki undir trygginguna sem hafa látið kræla á sér áður en viðkomandi einstaklingur sækir um tryggingu. Það ber þó nýrra við þegar fjölskyldusaga verður til þess að ákveðnir sjúkdómar falla ekki undir trygginguna.

Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MSf-félagsins, segir auk þess að engin haldbær vísindaleg rök styðji þessa framkomu.

Örn Gústavssson,framkvæmdastjóri KB líftrygginga í dag,segir þetta gert samkvæmt kröfu frá endurtryggjanda félagsins sem sé einn sá stærsti á sínu sviði. Þetta geti einig átt við þegar hjarta- og æðasjúkdómar hafa greinst hjá öðrum nánum fjölskyldumeðlimum, eða brjóstakrabbamein. Þá eigi þetta við um MND-og MS-sjúkdóminn. Að baki slíkri sérmeðferð sé þó alltaf einstaklingsbundið mat starfsmanna og trúnaðarlæknis, háð aldri og ásigkomulagi einstaklingsins sem sæki um trygginguna. Örn Gústavsson vildi ekki viðtal vegna málsins.

Sigurbjörg segist trúa því að heildarsamtök öryrkja beiti sér í málinu þar sem þetta beinist gegn fleiri hópum sjúklinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×