Innlent

Deild gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi

Sérstök greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum verður starfrækt við embætti ríkislögreglustjóra ef frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á lögreglulögum verður samþykkt á Alþingi.

Í minnisblaði sem Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi í morgun kemur fram að meðal meginatriða frumvarpsins sé stofnun greiningardeildar sem leggi mat á áhættu vegna hryðjuverka og skiplagðri glæpastarfsemi.

Deildin muni endurspegla þróun hjá lögregluembættum nágrannalandanna og auðvelda íslenskum lögregluyfirvöldum samstarf við þær deildir í öðrum löndum sem greini og meti hættu á afbrotum sem oftast teygi sig til margra landa og kennd eru við skiplagða eða alþjóðlega glæpastarfsemi og hryðjuverk.

Í minnisblaðinu segir að ákvæði um greiningardeild eigi að tryggja að þannig verði um hnúta búið að þeir sem gæti öryggis borgaranna hafi sambærilegar lögheimildir og starfsbræður þeirra erlendis til að sinna störfum sínum. Með ákvæðum um greiningardeild sé verið að leggja lögregluyfirvöldum í til tæki sem verði beitt í samræmi við heimildir í lögum um meðferð sakamála.

Auk þessa er lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilt að stofna greiningardeild við önnur embætti lögreglustjóra ef sérstök rök standi til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×