Innlent

Stjórnvöld taka alþjóðlegar skuldbindingar sínar ekki alvarlega

Mynd/Hari

Umhverfisverndarsinnar segja að íslensk stjórnvöld taki alþjóðlegar skuldbindingar sínar ekki alvarlega. Stækkun álversins í Straumsvík myndi klára mengunarkvóta Íslands, samkvæmt Kyoto-bókuninni.

Landsvirkjun hefur ákveðið að ganga til viðræðna við Alcan um stækkun álversins í Straumsvík. Miðað við áætlaða framleiðslu eftir stækkun verður mengunarkvóti Íslands samkvæmt Kyoto-skuldbindingum Íslands uppurinn. Formaður Náttúruverndarsamtakanna segir ljóst að stóriðjuáform stjórnvalda sýni að þau taki alþjóðaskuldbindingar sínar ekki alvarlega. Hann segir hæpið að biðja um auknar undanþágur eftir að núverandi Kyoto-skuldbingingar Íslands renna út árið 2012.

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, tekur í svipaðan streng og segir það skammarlegt ef Íslendingar ætli að biðja um aukinn mengunarkvóta eftir 2012 þegar krafan í alþjóðasamfélaginu verði sú að dregið verði úr mengun. Að auki heldur Jón því fram að þjóðhagslegur ábati af álframleiðslu sé mjög lítill því inni í tölum um útflutningsverðmæti sé innflutningur sem notaður er til framleiðslu áls. Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra segir of snemmt að draga ályktanir í málinu. Segir hún að Ísland muni standa við skuldbindingar sínar en óvitað sé hvað taki við eftir að þær renni út árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×