Innlent

Allt að 54% verðmunur á matarkörfunni

MYND/Sigurður Jökull

Það getur munað yfir helmingi á matvörukörfunni eftir því hvar verslað er. Þetta kemur fram í verðlagskönnun sem ASÍ gerði í gær.

Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands kannaði verð í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu og kom í ljós að munað gat allt að fimmtíu og fjórum prósentum á verði vörukörfunnar. Ódýrust var vörukarfan í verslun Bónus þar sem hún kostaði tæpar 3.300 krónur en dýrust var hún í verslun Tíu-ellefu en þar var vörukarfan á rúmar 5.000 krónur.

Í matarkörfunni eru nítján algengar neysluvörur heimilanna eins og mjólkurvörur, kjöt, kaffi, brauð, ávextir og grænmeti. Í mörgum tilfellum var lítill munur á sömu vörum á milli matvöruverslana. Þannig munaði innan við fjórum krónum á verði þrettán vöruliða í körfu verslunar Bónus og verslun Krónunnar. Einnig munaði innan við fjórum krónum á 12 vöruliðum í verslun Bónusar og verslun Kaskó. Könnunin var gerð í ellefu verslunum á höfuðborgarsvæðinu en ekki reyndist unnt að birta niðurstöður úr verslun Nettó í Mjódd þar sem rökstuddur grunur lék á að starfsmenn þar hafi reynt að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðu könnunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×