Innlent

Þorrinn hefst með Bóndadegi á morgun

Mynd/Pjetur

Þorrinn hefst á morgun með tilheyrandi þorramat og þorrablótum. Bóndadagur markar upphaf Þorrans en samkvæmt hefðinni eiga karlmenn að vakna árla morguns og hoppa um hálfnaktir á einum fæti í kringum hús sitt.

Óhætt er að segja að Íslendingar leggja meiri rækt við sumar hefðir en aðrar. Þorramaturinn er sívinsæll en það munu eflaust ekki fara margar sögur af hálfnöktum karlmönnum hoppandi í kringum hús sitt í tilefni bóndadagsins. Margir karlmenn gleðjast þess í stað yfir góðum gjöfum frá spússum sínum enda eru íslenskar konur sagðar duglegar að gefa mönnum sínum blóm og gjafir á Bóndadeginum.

Elva Björk Jónatansdóttir, blómaskreytir á Blómastofu Friðfinns, segir mikið um að konur gefi mönnum sínum sérstök blóm. Þá séu einnig skreytingar ýmisskonar vinsælar og algengt sé að smá gjöf sé laumað með líkt.

Jóhannes Stefánsson, eigandi Múlakaffi, segir að undirbúningurinn fyrir Þorrann hafi gengið vel í ár. Fleiri þúsund manns munu borða þorramat frá Þorrakónginum í ár. Jóhannes segir að þrjá síðustu daga fyrir Þorra sé ávallt mikið að gera og unnið sé nótt sem nýtan dag til að gera allt klárt. Hann segir svokallaðar hjónaöskjur vinsælar en auk þess sé boðið upp á þorramat á Múlakaffi og einnig sjái Múlakaffi um mat í tengslum við mörg þorrablót og mannfagnaði fyrir lítil sem stærri fyrirtæki.

Félagarnir Hörður Hjartarson og Guðmundur Grímsson segjast hlakka til Þorrans enda séu þeir báðir aldir upp við þorramat og þyki hann góður. Báðir segjast þeir vera mikið fyrir þorramatinn og borði öllu jafna mikið af honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×