Innlent

Neytendasamtökin harma ákvörðun forsætisráðherra

Mynd/Vísir
F ormaður Neytendasamtakanna harmar að forsætisráðherra hafi ekki séð ástæðu til að verða við ósk samtakanna um fulltrúa í nefnd þeirri sem skipuð var til að kanna hátt matvælaverð hér á landi. Formaður samtakanna vonast til að forsætisráðherra endurskoði þá ákvörðun sína.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna segir að sé þyki eðlilegt að samtökin myndu eiga fulltrúa í nefnd þeirri sem Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra skipaði til að kanna matvælaverð hér á landi. Hann segir samtökin vera einu heildarsamtök sinn tegundar hér á landi með um 12.000 félagsmenn. Matvælaverð sé mikið hagsmunamál fyrir neytendur alla. Jóhannes segir að bréf hafi verið sent til forsætisráðherra í nafni samtakanna 3. janúar síðastliðinn þar sem þess var farið á leit að samtökin fengju fulltrúa í nefndina. Hann segir að ekkert svar hafi borist varðandi þessi mál en hann hafi síðan lesið það í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum síðan að samtökin myndu ekki fá fulltrúa í nefndina. Jóhannes segir að nefndin muni líklega hafa samráð við Neytendasamtökin en það sé ekki fullnægjandi þar sem það sé vilji samtakanna að fá að taka fullan þátt í þeirri stefnumörkun sem mun eiga sér stað í nefndinni. Það sé því ólíku saman við að jafna að sitja einn til tvo fundi og að eiga sæti í nefndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×