Innlent

Verðmæti fyrirtækja í úrvalsvísitölu komið yfir 2000 milljarða

Kauphöll Íslands.
Kauphöll Íslands. MYND/Stefán Karlsson

Verðmæti fyrirtækja í úrvalsvísitölu Kauphallarinnar er komið yfir 2000 milljarða króna, og spáð er að það hækki um hátt í 30% í ár.

Þar af er hlutur stóru bankanna þriggja liðlega helmingur, en alls eru 26 fyrirtæki í úrvalsvísitölunni. KB banki er lang stærsta fyrirtækið, metinn á 558 milljarða króna sem er rösklega fjórðungur verðmætis allra fyrirtækjanna til samans.

Landsbankinn er í örðu sæti og Íslandsbanki í því þriðja, en samanlagt verðmæti þeirra er rúmlega verðmæti KB banka. Actavis Group er í fjórða sæti, þá Straumur-Burðarás og FL Group, öll metin á yfir hundrað milljarða, Bakkavör er í sjöunda sæti, næst Mosaic Fasions, Össur, Tryggingamiðstöðin og Dagsbrún er í tíunda sæti, metin á rúmlega 25 milljarða.

Eftir gríðarlega hækkun úrvalsvísitölunnar þrjú ár í röð voru greiningadeildir bankanna farnar að spá hóflegri hækkun í ár, en nýjustu spár fara nú hækkandi og eru komnar upp í allt að 26% fyrir árið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×