Innlent

Dómarafélagið gæti farið í mál við ríkið

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. MYND/Valgarður Gíslason

Dómarafélagið tekur ákvörðun um það hvort farið verði í mál við ríkið vegna laga á Kjaradóm, eftir að Alþingi hefur afgreitt málið frá sér. Fulltrúar frá Dómarafélagsins gengu á fund Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Hjördís Hákonardóttir, formaður Dómarafélagsins, segir að niðurstöðu nefndarinnar sé nú beðið. Dómarar líti það hins vegar alvarlegum augum ef framkvæmdavaldið, og eftir atvikum löggjafarvaldið, fari að hlutast til um laun sem óháður aðili hafi ákveðið.

Dómarafélagið hefur sent forseta Alþingis, formönnum þingflokka, allsherjarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd bréf þar sem afskiptum annarra en Kjaradóms af launum dómara er mótmælt. Sambærilegt bréf var sent forsætisráðherra ellefta janúar.

Efnahags og viðskiptanefnd fjallaði í morgun um frumvarp fjármálaráðherra um kjaradóm og kjaranefnd, sem fellir úr gildi launahækkanir, til þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna þar með talið dómara, sem kjaradómur úrskurðaði í desember. Dómarar telja afnám úrskurðar Kjaradóms með lögum ganga gegn stjórnarskránni.

Hjördís Hákonardóttir formaður Dómarafélags Íslands segir að fundurinn hafi staðið í tæpa klukkustund. Og dómarar hafi komið sínum sjónarmiðum rækilega á framfæri. Málið sé mjög alvarlegt. Þarna sé tekist á um þrískiptingu ríkisvaldsins. Óháður aðili ákveði þessi laun og hann sé skipaður með lögum. Það sé alvarlegt að framkvæmdavaldið og ef löggjafarvaldið fari að hlutast til að breyta launum sem þegar hafi verið ákveðin.

Alþingi samþykkti að taka málið á dagskrá með afbrigðum og stefnt er að því að afgreiða það fyrir helgi. Deilt er þó um hvort ákvæði frumvarpinu standist stjórnarskrá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×