Innlent

Tómas Zoega segir hugsanlega upp á Landspítalanum

Tómas Zoega
Tómas Zoega MYND/E.Ól.

Tómas Zoega geðlæknir mun hugsanlega segja upp störfum hjá Landspítalanum ef Hæstiréttur staðfestir ekki dóm héraðsdóms í máli hans gegn spítalanum. Hann segir yfirstjórn spítalans hafa farið offari í málinu.

Landspítali - háskólasjúkrahús ákvað í apríl í fyrra að færa Tómas úr stöðu yfirlæknis á geðsviði og í starf sérfræðilæknis. Ákvörðunin var tekin á þeim forsendum að Tómas hefði neitað að samþykkja að hætta rekstri á eigin læknastofu. Hann ákvað þegar í stað að kæra ákvörðunina og krafðist ógildingar og þann þrítugasta desember sl. féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á þá kröfu. Landspítalanum var einnig gert að greiða Tómasi milljónir króna í málskostnað. Strax eftir að dómurinn féll var Tómas kominn í frí frá störfum sínum á Landspítalanum, en hann hóf störf þar aftur fyrir helgi, auk þess sem hann sinnir enn störfum á læknastofu sinni. Tómas hefur ekki, að minnsta kosti ekki enn, verið færður að nýju í stöðu yfirlæknis. Hann fær þó laun sem slíkur. Aðspurður segir Tómas að það hafi verið löngu ákveðið að hann færi í frí á þessum tíma vegna utanlandsferðar í tilefni afmælis eiginkonu sinnar.

Tómas vill að stjórn spítalans segi af sér, sem hefur enn ekki gerst, enda hafa forsvarsmenn Landspítalans áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar. Tómas segir að ef Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn hljóti pressan á stjórnina að skoða stöðu sína að aukast mjög mikið. Ef Hæstiréttur snýr hins vegar dóminum hljóti hann sjálfur að íhuga stöðu sína. Aðspurður segir hann uppsögn einn möguleika í stöðunni.

Niðurstöðu Hæstaréttar er að vænta með vorinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×