Innlent

Neysla fólks dregst saman

Markaður með fólksbíla að mettast Í mars voru fluttir inn bílar fyrir 3,5 milljarða króna en í apríl fyrir rúma 2 milljarða.
Markaður með fólksbíla að mettast Í mars voru fluttir inn bílar fyrir 3,5 milljarða króna en í apríl fyrir rúma 2 milljarða.

Samsetning vöruskiptajöfnuðs hefur tekið stakkaskiptum. Það sýna nýútgefnar tölur Hagstofunnar fyrir aprílmánuð. Undanfarna mánuði hefur hallinn verið rekinn áfram af neyslu en nú stjórnar hann að miklu leyti af aukinni fjárfestingu. Það er í raun betra því fjárfesting skilar sér í auknum útflutningstekjum í framtíðinni, segir Ásgeir Jónsson, aðalhagfræðingur KB banka.

Skýr merki eru um áhrif stóriðjuframkvæmda í vöruskiptajöfnuðinum þar sem mikil aukning hefur verið í innflutningi á fjárfestingarvörum. Hins vegar hefur orðið snarpur viðsnúningur í innflutningi á fólksbílum og varanlegum neysluvörum en undir þann flokk falla meðal annars húsgögn og ýmis rafmagns- og heimilistæki. Almenningur virðist vera að endurmeta ástandið. Minnkandi einkaneysla helst í hendur við væntingarvísitölu Gallup sem birt var á dögunum og sýnir að neytendur hafa ekki verið svartsýnni síðan í desember 2002, segir Ásgeir.

Í mars voru fluttir inn bílar fyrir 3,5 milljarða en í apríl fyrir rúma tvo milljarða. Það er mikill samdráttur og telst líklegt að mettun sé orðin á markaði með fólksbíla. Ásgeir segir ekki ólíklegt að það taki tvö til þrjú ár þangað til innflutningur tekur að aukast aftur miðað við það sem sagan sýnir. Þegar gengi krónunnar féll árin 2000 til 2001 hafi innflutningur á bílum og varanlegum neysluvörum hrunið. Það sama hafi gerst á árunum 1987 og 1998.

Greiningardeild KB banka þykir líklegt að innflutningur neysluvara muni halda áfram að dragast saman þegar líður á árið þó töluverð aukning verði áfram í fjárfestingavöru. Hér skipta þrír þættir mestu máli mettunaráhrif einkaneyslu, veiking krónunnar og háir vextir. Aukin verðbólga og minni væntingar neytenda spila einnig inn í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×