Innlent

Segist hafa fengið fyrirmæli um hvernig rukka ætti fyrir bílana

Jón Gerald Sullenberger bar vitni fyrir dómi í morgun þegar aðalmeðferð í Baugsmálinu var fram haldið í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Jón Gerald Sullenberger bar vitni fyrir dómi í morgun þegar aðalmeðferð í Baugsmálinu var fram haldið í Héraðsdómi Reykjavíkur. MYND/Gunnar V. Andrésson

Vitnaleiðslur yfir Jóni Geraldi Sullenberger hófust í morgun þegar aðalmeðferð í Baugsmálinu var fram haldið í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar sagði hann að honum hefðu verið gefin fyrirmæli um hvernig rukka ætti fyrir innflutning á bílum sem ákært er vegna og að hann hafi farið að þeim óskum til að tryggja að hann fengi greiddan útlagðan kostnað vegna bílakaupanna.

Við upphaf þinghalds í morgun kom fram að dómarar í málinu tóku gild þau nýju gögn sem ákæruvaldið lagði fram í gær en verjendur mótmæltu þar sem þau höfðu ekki komið fyrir augu þeirra fyrr en þá. Síðan fóru verjendur þess á leit við ákæruvaldið að fulltrúum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra yrði gert að yfirgefa dómsalinn á meðan vitnaleiðslur færu fram í dag. Fulltrúarnir urðu þegar við þeirri ósk.

Því næst hófust vitnaleiðslur yfir Jóni Geraldi Sullenberger vegna kaupa hans og innflutnings á fjórum bifreiðum sem deilt er um í fjórum ákæruliðum af átta í málinu. Áður en vitnaleiðslur hófust óskaði ákæruvaldið eftir því að dómari gerði vitni grein fyrir því að honum væri ekki skylt að svara spurningum sem feli í sér játningu eða bendingu um að hann hafi framið refsiverðan verknað.

Því næst var Jón Gerald spurður hvort hann hefði samið við lögreglu eða ákæruvald um að sleppa við ákæru í málinu eða hvort honum hafi verið lofað einhverju í skiptum fyrir vitnisburð sinn. Því neitaði hann.

Fyrir rétti í morgun bar Jón Gerald að hann hefði verið milligöngumaður við kaupin. Þegar bílar hafi verið fundnir hafi hann farið eftir tilmælum um hverja ætti að rukka og um hvaða upphæðir. Hann hafi álitið það einu leiðina til að fá greiddan útlagðan kostnað vegna bílakaupanna.

Jón Gerald var einnig spurður hvort hann hefði falsað tiltekin gögn í málinu, það er tölvupósta sem Kristín Jóhannesdóttir mun hafa sent honum en kannast ekki við. Því neitaði hann.

Um klukkan ellefu lauk sækjandi skýrslutöku og við tóku verjendur tveggja ákærðu sem hafa spurt Jón Gerald í þaula um ýmsa anga viðskiptanna. Búast má við að þinghald verði fram eftir degi í Héraðsdómi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×