Innlent

Gefur ekki upp hvort fleiri gætu tengst málinu

MYND/Vísir

Meint fjármálamisferli á glasafrjóvgunardeild Landspítalans á árunum 2002 til 2004 er til rannsóknar hjá Ríkislögreglustjóra. Einum starfsmanni hefur verið vikið úr starfi vegna gruns um að hafa verið viðriðinn málið. Lögfræðingur Landspítalans vill ekki tjá sig um það hvort fleiri geti tengst málinu en ríflega hundrað skjólstæðingum deildarinnar hefur verið sent bréf þar sem óskað er eftir leyfi til að afhenda lögreglu nöfn þeirra vegna rannsókn málsins.

Málið kom upp árið 2004 við reglubundið innra eftirlit á fjárreiðum glasafrjóvgunardeildar. Jóhannes Pálmason, lögfræðingur Landspítalans, segir málið talsvert umfangsmikið. Eftir skoðun Ríkisendurskoðunar á því í árslok 2004 var ákveðið að vísa málinu til lögreglu. Jóhannes kveðst ekki geta tjáð sig um það hversu háar upphæðir sé að ræða en játar því að um milljónir sé að ræða, en þó ekki tugir milljóna. Hann segist ekki vita til þess að skjólstæðingar spítalans hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna málsins, en rannsókn muni líklega leiða það í ljós.

Jóhannes kveðst ekki geta tjáð sig um það hvort fleiri en þeim starfsmanni sem sagt var upp séu viðriðnir málið. 5-10 manns störfuðu við deildina en Jóhannes vill ekki gefa upp hvaða starf umræddur aðili hafði með höndum, en upplýsir þó að hann var ekki yfirmaður. Þá segist hann ekki geta tjáð sig um það hvernig hann bar sig að við verknaðinn.

Aðspurður hvernig málið standi núna segir Jóhannes að svör við beiðninni sem send var til skjólstæðinga glasafrjóvgunardeildar séu að berast og svörun hafi verið ágæt. Síðan fari málið áfram til lögreglu til frekari meðferðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×