Innlent

Samið um leigu á 800 fermetra húsnæði til 20 ára

Jón Gíslason forstjóri landbúnaðarstofnunar t.v. Guðni Ágústsson og Birgir Guðmundsson frá Merkiland við undirritun leigusamningsins.
Jón Gíslason forstjóri landbúnaðarstofnunar t.v. Guðni Ágústsson og Birgir Guðmundsson frá Merkiland við undirritun leigusamningsins. MYND/sudurland.net-Ólafur

Starsfemi höfuðstöðva Landbúnaðarstofnunar á Selfossi flyst í nýtt 800 fermetra húnsæði á haustdögum. Leigusamningur til næstu 20 ára var undirritaður við eignarhaldsfélagið Merkiland í dag. Jafnframt var undirritaður samstarfssamningur við ráðgjafafyrirtækið Hið íslenska ráðgjafahús um aðstoð við stefnumótun og rekstur nýrrar stofnunar.

Kynningafundur um starfsemina var haldinn á Selfossi í dag. Jón Gíslason forstjóri stofnunarinnar skýrði frá tilgangi stofnunarinnar og meginmarkmiðum. Landbúnaðarstofnun hóf störf um áramótin en höfuðstöðvar voru fluttar á Selfoss 1. apríl.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagði það vera merk tímamót að stofnunin tæki til starfa á Selfossi. "Það er mikið hagsmunamál fyrir byggðirnar og landbúnaðinn að stofnunin verði öflug, til að geta tekið við mikilvægum málum á sviði, eftirlits, stjórnsýslu og rannsókna," sagði Guðni.

Til bráðabirgða er yfirstjórn stofnunarinnar að Austurvegi 10. Nú hefur hins vegar verið undirritaður leigusamningur við eignarhaldsfélagið Merkiland um framtíðarhúsnæði fyrir höfuðstöðvar stofnunarinnar að Austurvegi 64 á Selfossi. Það húsnæði er í byggingu og verður afhent í september 2006. Þá hefur Landbúnaðarstofnun umdæmisskrifstofur um allt land og þar starfa héraðsdýralæknar, auk þess sem inn- og útflutningseftirlit er staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Haustið 2006 verða starfsmenn stofnunarinnar á Selfossi um 30 og svipaður fjöldi starfar við umdæmisskrifstofur og eru starfsmenn því samtals um 60 talsins. Um það bil 50 störf flytjast til úr ýmsum deildum sem færast nú undir starfsemi stofnunarinnar.

Fjölþætt verkefni
Jón Gíslason forstjóri landbúnaðarstofnunar t.v. og Kristján Vigfússon frá Hinu íslenska ráðgjafahúsiMYND/sudurland.net-Ólafur

Með stofnun Landbúnaðarstofnunar hafa embætti Yfirdýralæknis, Aðfangaeftirlits, Veiðimálastjóra og Yfirkjötmats verið sameinuð á einum stað, auk verkefna sem flytjast til stofnunarinnar frá landbúnaðarráðuneytinu, Landbúnaðarháskóla Íslands og Bændasamtökum Íslands. Verkefni þessi eru á sviði heilbrigðis dýra og dýraverndar, matvælaeftirlits, kjötmats, eftirlits með fóðri, áburði og sáðvöru, plöntusjúkdóma, lax- og silungsveiði og fiskeldis. Þá fer Landbúnaðarstofnun með verkefni vegna lífrænnar framleiðslu landbúnaðarafurða og stjórnsýslu vegna búfjárafurða og búfjáreftirlits. Verkefni stofnunarinnar eru því fjölþætt.



Nýtt stjórnskipulag

Landbúnaðarráðherra hefur sett reglur um starfsemi og innra stjórnskipulag Landbúnaðarstofnunar. Nýtt stjórnskipulag tók gildi 1. apríl s.l. og fara tvö fagsvið með eftirlitsmál, þ.e. dýraheilbrigðissvið og matvæla- og umhverfissvið, og síðan eru tvö stoðsvið sem fara annars vegar með stjórnsýslu og hins vegar með rekstur og þjónustu. Þar við bætast 14 umdæmisskrifstofur. Skipurit Landbúnaðarstofnunar má sjá í fylgiskjali hér með fréttinni og er það byggt á þeim reglum sem settar hafa verið um starfsemi hennar.



Stefnumótun og árangursstjórnun

Á þessum tímamótum, þegar fjölþætt verkefni eru sameinuð í nýrri stofnun, telja stjórnvöld brýnt að móta stefnu í störfum, setja mælanleg markmið, skilgreina verkferla og koma á virkri starfsmannastefnu. Til að aðstoða stofnunina við þessi verkefni hefur verið gerður samningur við Hið íslenska ráðgjafahús. Stefnt er að því að þetta verkefni verði komið vel á veg árið 2007 og að þá verði gerður árangursstjórnunarsamningur við landbúnaðarráðuneytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×