Innlent

Jón Gerald bar ljúgvitni gegn Jóhannesi

Lögmaður Jóhannesar Jónssonar í Bónus segir Jón Gerald Sullenberger hafa borið ljúgvitni gegn Jóhannesi hjá lögreglu og á þeirri lygi hafi ákæra gegn honum verið byggð í Baugsmálinu. Jóhannes hefur kært Sullenberger til ríkislögreglustjóra. Þá hefur hann kvartað undan yfirmanni efnahagsbrotadeildar lögreglunnar og ríkislögreglustjóra við umboðsmann Alþingis.

Ákæran á hendur Jóhannesi var að mestu byggð á framburði Jóns Geralds sem sagði Jóhannes hafa beðið sig að gefa út ranga reikninga vegna bílakaupa en við vitnaleiðslur í héraðsdómi breytti hann framburði sínum. Að sögn lögmanns Jóhannesar eru rangar sakargiftir sem þessar litnar alvarlegum augum. Hann segir alveg ljóst að ef Jón Gerald hefði ekki borið Jóhannes röngum sökum við yfirheyrslur hjá lögreglu hefði það sennilega leitt til þess að Jóhannes hefði ekki verið ákærður. Refsing fyrir brot af þessu tagi sé allt að tíu ár og metið af löggjafanum sem gríðarlega alvarlegt brot. Hann á því von á að ríkissaksóknari taki málið til rannsóknar.

Að sögn Einars Þórs hefur Jóhannes einnig sent umboðsmanni Alþingis kvörtun um að Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hafi brotið jafnræðisreglu þegar ákæra var gefin út á hendur honum. Hann telur að ákæruvaldinu beri að fara eftir þeim reglum að jafnræðis sé gætt og að það liggi fyrir að Jón Gerald hafi ítrekað lýst því yfir hjá lögreglu að hann hafi framið refsivert athæfi en af einhverjum ástæðum hafi hann ekki verið ákærður á meðan Jóhannes, sem alltaf neitaði sök í málinu var ákærður. Í þessu felst brot á jafnræðisreglunni að þeirra mati.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×