Innlent

Heróín fannst í fyrsta skipti á farþega á Keflavíkurflugvelli

Heróín fannst í fyrsta skipti á farþega á Keflavíkurflugvelli á sunnudag, þegar karlmaður á fimmtugsaldri reyndi að smygla efninu innvortis til landsins. Hann var að koma frá Amsterdam og þótti lögreglu og tollgæslu tilefni til að skoða hann nánar. Kom þá í ljós að hann hafði falið um fimm grömm af heróíni og um 30 grömm af kókaíni í verjum í meltingarvegi sínum.

Maðurinn er þekktur fyrir heróinneyslu á erlendri grundu, en heróin mun ekki ganga kaupum og sölum á götunum hér, að sögn Ásgeirs Karlssonar í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík, sem fer með rannsókn þessa máls. Hinsvegar er talið að hér sé þröngur neytendahópur, sem leitist ekki við að útbreiða efnið. Þórarinn Tyrfingsson á Vogi segir að aðeins ör fáir heróinneytendur komi á Vog á ári hverju vegna heróínneyslu og séu þeir þá að koma beint frá útlöndum gagngert til að fara í meðferð hér á landi.

Engin haldbær skýring virðist hinsvegar vera á því hvers vegna efnið hefur ekki náð útbreiðslu hér á landi því það er vinsælt meðal sprautufíkla víða um heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×