Innlent

Útgjöld aukast um sex prósent umfram ráðstöfunartekjur

Útgjöld heimilanna hafa aukist um sex prósent umfram ráðstöfunartekjur þeirra frá tímabilinu 2001-2003 til tímabilsins 2002-2004 samkvæmt rannsóknum Hagstofunnar. Þær leiða enn fremur í ljós að um gæludýr eru á þriðjungi heimila í landinu.

Hagstofa Íslands kannar árlega neysluvenjur þjóðarinnar og þar kemur margt forvitnilegt í ljós. Neysluútgjöld á hvert heimili á tímabilinu 2002-2004 hafa til að mynda aukist um 9,3 prósent frá tímabilinu 2001-2003 en ráðstöfunartekjur um aðeins 3,1 prósent og því eyða heimilin um sex prósentum umfram tekjur sínar.

Nokkrar breytingar hafa orðið á hlutföllum einstakra liða í útgjöldum heimilanna á milli tímabilanna. Hlutfall matar og drykkjar útgjöldunum er nú 14,4 prósent en var 15,2. Hlutfall áfengis og tóbaks hefur einnig minnkað og sama má segja um föt og skó. Hins vegar hefur hlutur ferða og flutninga aukist úr 12,9 prósentum í 15,7 prósent. Það má fyrst og fremst rekja til aukins innflutnings á bílum, en bíllausum heimilum fer ört fækkandi.

Meðalstærð heimilla minnkaði lítillega frá tímabilinu 2001-2003 til 2002-2004, eða úr 2,62 manneskjum í 2,58. Hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði helst hins vegar nánast óbreytt, en 81 prósent býr í eigin húsnæði og 19 eru á leigumarkaði. Þá býr meðalfjölskyldan í um fjögurra herbergja og 122 fermetra húsnæði.

Þá vekur það athygli að um gæludýr eru á tæplega þrjátíu prósentum heimila. Þar af er köttur á um 12 prósentum heimila en hundur hjá átta prósentum, en hestar eru rannsókninni taldir til gæludýra og eru á 3,6 prósentum heimila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×