Innlent

Jómfrúarferð Baldurs VIII á Íslandi

Baldur áttundi fór sínar fyrstu ferðir yfir Breiðafjörðinn í dag. Örfáir árrisulir ferðamenn tóku sér far norður yfir fjörðinn en fullbókað var, og biðlisti, frá Brjánslæk. Ferjan hafði tafist út af mótvindi á leið sinni frá Hollandi, þaðan sem hún var keypt en kom loks til Stykkishólms á laugardag.

Það var rólegt í morgun niðri á höfn og lítið húllumhæ þegar Hollendingurinn Baldur fór í sína fyrstu áætlunarferð á íslenskum öldum. Fólksstraumurinn liggur frekar í hina áttina, margir eru á leið heim til sín í suðurátt eftir helgina. Pétur Ágústsson, skipstjóri, sagði Baldur aldrei hafa flutt jafnmarga bíla og í dag, enda hefur aldrei verið jafnmikið pláss.

Nýi Baldur er mikil samgöngubót, tæplega helmingi stærri en hinn fyrri, og tekur margfalt fleiri bíla. Þetta er þörf viðbót því síðastliðin sumur hefur bíladekkið oft verið fullt þegar rútustraumurinn er sem mestur. Þar að auki er hann um klukkutíma skemur að sigla yfir fjörðinn en fyrirrennari hans.

Baldur lagðist aftur að bryggju rétt um þrjúleytið, þá kominn til baka frá Brjánslæk. Að sögn skipstjóra gekk ferðin vel, einnig lendingin í Flatey sem margir voru spenntir að sjá hvernig tækist. Bryggjan er gömul og þar að auki einungis 19 metra löng en skipið 62 metra langt.

Baldur siglir nú samkvæmt áætlun, tvær ferðir á dag hvora leið, eins og venja hefur verið og margir farþegar munu njóta stóra sóldekksins í sumar þegar sólin skín eins og í dag.

og margir farþegar munu njóta stóra sóldekksins í sumar þegar sólin skín eins og í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×