Lífið

Þurfti að kasta upp í beinni útsendingu

Heimir neyddist til að halda stillingu sinni eftir að Guðni rauk skyndilega út í beinni útsendingu til að kasta upp.
Heimir neyddist til að halda stillingu sinni eftir að Guðni rauk skyndilega út í beinni útsendingu til að kasta upp.

"Það sveif svona líka rosalega á mig í beinni og ég varð að bregða mér frá til að kasta upp," segir Guðni Bergsson. Áhorfendur Sýnar hrukku margir hverjir í kút á miðvikudagskvöldið þegar knattspyrnukappinn fyrrverandi hvarf skyndilega úr myndveri sjónvarpsstöðvarinnar.

Eftir sátu þeir Heimir Karlsson, Arnar Gunnlaugsson og knattspyrnudómarinn geðþekki Gylfi Orrason sem síðar í þættinum settist í sæti Guðna.

Undir myndbrotum úr leik AC Milan og Anderlecht í meistardeild Evrópu mátti heyra mikin skruðning og svo rak einn þáttastjórnandanna upp undrunaróp og þegar myndavélunum var beint aftur inn í myndverið var miðvörðurinn gamli horfinn á braut. Margir héldu að þarna hefði eitthvað alvarlegt komið fyrir en þegar Fréttablaðið hafði samband við Guðna var hann allur að braggast, sagði að ælupest hefði verið að ganga heimafyrir og hún hefði þarna komið í bakið á honum. "Ljósin og hitinn voru nú ekki beint til bæta úr skák," sagði Guðni. "Ég náði þó sem betur fer fram á klósett," bætir hann við og viðurkenndi að þarna hefði gamli sprengikrafturinn úr boltanum komið að góðum notum, "Ég er að ná mér, er ekkert slæmur í dag," útskýrir Guðni en augljóst var að félögum hans í þættinum stóð ekki á sama. "Það var mjög óþægilegt að finna fyrir þessu í miðjum þætti en mér fannst það aðdáandavert að sjá hvernig allir brugðust við, náðu að leysa hlutina eins og þetta væri hluti af handritinu," útskýrir Guðni.

Heimir Karlsson viðurkennir að honum hafi ekki staðið á sama þegar Guðni rauk svona skyndilega út undir myndbrotunum en ákvað að halda stillingu sinni enda vissi hann að fjölskylda og ættingjar Guðna gátu verið að horfa á. "Við vildum ekki vera að búa til einhverja hræðslu hjá fólkinu heimafyrir," segir Heimir sem gat ekkert hugað að félaga sínum en Arnar brá sér frá og sá að þetta var ekki eins alvarlegt og þetta leit út fyrir að vera. "Ég hafði hugann við Guðna á meðan við fórum yfir leikina en til allra hamingju fór þetta allt vel að lokum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.