Umboðsmaður franska landsliðsmannsins Franck Ribery hefur vísað því á bug að Arsenal hafi gert 10 milljón punda tilboð í vængmanninn knáa, sem gerði fína hluti með Frökkum á HM þrátt fyrir að vera nýgræðingur með landsliðinu.
Ribery leikur með Marseille í heimalandi sínu en hefur undanfarið verið orðaður við meistara Lyon og fyrir stuttu kom nafn Arsenal upp á yfirborðið. "Ég hef ekki hitt forráðamenn Arsenal, né annara liða, en orðrómur er uppi um að Real Madrid og Bayern Munchen hafi einnig áhuga á að fá hann til liðs við sig," sagði umboðsmaður Ribery og bætti við að leikmaðurinn ætti von á að funda með forráðamönnum Marseille þegar hann kæmi úr sumarfríi.