Innlent

Þúsund ára jarðhýsi í Garðabænum

Fornleifafræðikústar og -múrskeiðar fengu síðasta tækifærið í dag til að fletta hulunni af miðaldarústum í Akralandi í Garðabæ. Stórvirkari vinnuvélar taka nú við og reisa þar framtíðarbyggð nútímamanna. Uppgröfturinn á Virkishóli í Akralandi lætur ekki mikið yfir sér en ef vel er að gáð má sjá útlínur lítils mannvirkis. Þetta er jarðhýsi sem var líklega fyrst byggt öðru hvoru megin við árið 1000 í landi Arnarness.

Síðan var hætt að nota skúrinn og fauk ofan af honum og þannig stóðu tóftirnar þar til aftur var byggt ofan á þær á fimmtándu öld. Jarðhýsið tengist líklega miklum mógröfum sem voru í margar aldir, allt fram á miðja tuttugustu öld, í mýrinni neðst í Akralandinu. Líklega hafa menn þó ekki dvalið í jarðhýsinu næturlangt heldur líklega reykt þar úr einni pípu eða svo og borðað nesti. Í rústunum hafa fundist krítarpípur og glerbrot en engir aðrir munir.

Í næstu viku skríða kranarnir og aðrar stórvirkar vinnuvélar yfir þennan blett líka, en þá verður búið að kortleggja fortíð þessara minja. Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur, sem stjórnaði uppgreftrinum í dag, segir algengt að fornleifafræðiuppgreftir af þessu tagi séu á síðustu stundu áður en byggt er á svæði. Hann sagði þó að yfirleitt næðist að klára verkefni áður en tíminn væri á þrotum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×