Innlent

Vélsleðamanna enn leitað

Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna leitar enn tveggja manna á svæði norðan Langjökuls. Mennirnir ætluðu í stutta vélsleðaferð á Landgjökul í gærdag en skiluðu sér ekki til byggða. Þyrla Landhelgisgæslunnar fann vélsleðana yfirgefna í Hallmundarhrauni við jaðar Landgjökuls fyrr í morgun.

Þetta er orðin viðamikil björgunaraðgerð en björgunarsveitarmenn frá hálfu landinu hafa verið kallaðir til leitarstarfa, allt frá Eyjarfjarðarsvæðinu í norðri vestur og suður um til Rangárvalla. Mennirnir tveir sem leitað er að ætluðu í stutta ferð á Langjökul á vélsleðum í gærdag. Höfðu þeir boðað komu sína í sumarbústað í Skorradal fyrir kvöldmat í gær. Þegar þeir skiluðu sér ekki til byggða var björgunarlið kallað út og hófst leit uppúr miðnætti.

Þyrla Landhelgisgæslunnar og flugvél Flugmálastjórnar tóku þátt í leitinni. Í nótt var farið yfir jökulinn sjálfan en í morgun breyttist eðli leitarinnar. Þá flugu þyrluflugmenn gæslunnar fram á vélsleðanna yfirgefna í Hallmundarhrauni við jaðar Langjökuls. Þetta var laust fyrir klukkan átta í morgun. Var talið líklegt að vélsleðamennirnir hefðu villst, skilið sleðana eftir, þegar snjó sleppti og haldið af stað fótgangandi. Fjölmennir gönguhópar björgunarsveitarmanna hafa nú verið kallaðir út til að fara yfir svæðið. Um 200 björgunarmenn taka þátt í aðgerðum. Tvímenningarnir sem leitað er að eru af höfuðborgarsvæðinu. Þeir teljast ekki til reynslumikilla fjallamanna samkvæmt mati talsmanns Landsbjargar. Það viðrar vel á leitarsvæðinu en veðurhorfurnar eru ekki góðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×