Innlent

Minni Fríhöfn ógnar atvinnulífi á Suðurnesjunum

Framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar segir það ógna atvinnulífi á Suðurnesjum verði bannað að selja annað en áfengi og tóbak í komufríhöfninni. Ef af verður þarf að segja um fimmtíu starfsmönnum upp störfum.

Fjármálaráðherra ákveður hvaða vörur er heimilt að selja í tollfrjálsri verslun eins og Fríhöfninni og er nú vinna að slíkri reglugerð hafin. Samtök verslunar og þjónustu hafa krafist þess um langt skeið að úrvalið í komufríhöfn verði takmarkað mjög. Íslendingar á leið heim frá útlöndum hafa getað verslað hér í komufríhöfninni á Keflavíkurflugvelli frá árinu 1970. Ef af breytingunum verður mun úrvalið hér takmarkast við áfengi og tóbak.

Sturla Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, segir að ef umræddar hugmyndir verði að raunveruleika þá þurfi að draga saman, ekki bara í húsnæði heldur líka starfsfólki. Hann segir uppsögn starfsfólks alltaf ógn við atvinnusvæðið á Suðurnesjum,sem hefur ekki verið of gott hin síðari ár. Hann segir að hugsanlega þurfi að segja upp 50 manns ef fríhöfnin verður minnkuð.

Sturla segir að ef bannað verði að selja annað en áfengi og tóbak í komufríhöfninni muni það hafa gríðarleg áhrif á rekstur flugstöðvarinnar. Hann segir að slíkt myndi þýða mikla tekjuskerðingu en nú séu tekjur af hverjum farþega ekki nema um 6 dollarar á hvern innritaðann farþega og þær myndu minnka enn meira með breytingunum. Sturla segir að tekjur af sölu í Fríhöfninni séu á milli 70 og 80% af öllum tekjum flugstöðvarinnar.Hannsegir Fríhöfnina fyrst og fremst vera í samkeppni við aðrar fríhafnir en ekki verslanir á Íslandi. Ef fólk fái til dæmis ekki raftæki og snyrtivörur í Fríhöfninni við heimkomu muni það kaupa vörurnar í útlöndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×