Innlent

Aldrei fleiri ferðamenn en í fyrra

Ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur á síðasta ári.
Ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur á síðasta ári. MYND/E.Ól.

Aldrei hafa jafn margir ferðamenn komið til landsins á einu ári og í fyrra, eða tæplega 370 þúsund talsins. Ferðamönnum til landsins hefur fjölgað jafnt og þétt hin síðari ár en á síðustu þremur árum hefur ferðamönnum fjölgað um 30%.

Í fyrra komu tæplega 10.000 fleiri ferðamenn til landsins en árið 2004. Bretar voru fjölmennastir þeirra ferðamanna sem komu til landsins í fyrra en alls komu tæplega 58.000 breskir ferðamenn til landsins á síðasta ári. Bandaríkjamenn voru næst fjölmennastir ferðamanna og þá Þjóðverjar.

Mest er aukningin á ferðamönnum frá Bandaríkjunum eða um 11 prósent. Þá hefur ferðamönnum frá Kína einnig fjölgað mikið en talið er að ferðamönnum frá Kína muni fjölga verulega á næstu árum.

Æ fleiri ferðamenn koma til landsins utan háannatímans og hefur ferðamönnum yfir vetrartímann verið að fjölga jafnt og þétt. Til að mynda var fjöldi ferðamanna í október síðastliðinn svipaður og í júní fyrir fjórum árum. Langflestir ferðamenn sem koma til landsins fara um Keflavíkurflugvöll eða rúm 356.000 ferðamenn. Um 8.000 ferðamenn komu með Norrænu og um 5.200 ferðamenn komu með öðrum skipum eða flugu um aðra millilandaflugvelli. Þá komu um 56.000 ferðamenn með skemmtiferðaskipum til landsins í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×