Innlent

Sjálfstæðismenn sakaðir um að hindra Bauhaus

Borgarstjóraefni Samfylkingarinnar í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, sakar bæjarstjóra sjálfstæðismanna á höfuðborgarsvæðinu um að hindra samkeppni í byggingavöruverslun með því að synja þýsku keðjunni Bauhaus um lóð. Borgarráð Reykjavíkur hefur ítrekað frestað að úthluta Bauhaus lóð við Úlfarsfell vegna athugasemda frá BYKO og Mosfellsbæ. Bæjarstjóri Mosfellsbæjar skýrði afstöðu bæjarins á NFS í morgun með því að þessi lóðarúthlutun væri ekki í samræmi samkomulag sveitarfélaganna sem fælist í þróunaráætlun. Dagur B. Eggertsson segir að leitun sé að bæjarstjóra sjálfstæðismanna á höfuðborgarsvæðinu sem vilji greiða fyrir samkeppni á byggingarvörumarkaði og lóðaúthlutun til Bauhaus hafi verið stöðvuð bæði í Garðabæ og Kópavogi. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, sagði þetta bull í umræðuþættinum Fréttavaktin fyrir hádegi og kvaðst frábiðja sér svona umræðu. Dagur skaut hins vegar á bæjaryfirvöld í Garðabæ og Kópavogi og sagði að þáttur þeirra væri ósögð saga. Norrænu samkeppnisráðin hefðu í síðustu ársskýrslu sérstaklega beint því til sveitarfélaga að tryggja samkeppni í þágu íbúða sinna. Ragnheiður segir hins vegar að þróunaráætlunin sé upp í loft ef Bauhaus verði úthlutað lóð austan við Vesturlandsveginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×