Erlent

Nær ólæknanlegt afbrigði berkla

Berklasérfræðingar funda í Suður-Afríku út af nýju afbrigði berklasjúkdómsins sem þeir segja nær ólæknanlegt. Nýja afbrigðið leggst sérstaklega þungt á eyðnisjúklinga og óttast sérfræðingar því sérstaklega um eyðnihrjáðar byggðir Afríku. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur staðfest að upp sé komið nýtt og harðgerara afbrigði berklabakteríunnar. Þetta nýja afbrigði stenst flest af bestu lyfjum sem til eru við berklabakteríunni auk flestra lyfja sem þykja síðri vegna aukaverkana og eitrunaráhrifa en bíta engu að síður á erfiðustu afbrigðum sem upp hafa komið hingað til. Um 1,7 milljónir manna deyja í heiminum árlega vegna berkla, þar af eru um 425 þúsund dauðsföll vegna þess afbrigðis sem hingað til hefur verið talið erfiðast að lækna. Tíðni þessarar nær ólæknanlegu berklabakteríu af þessum 425 þúsund dauðsföllum er mismunandi milli landa, hún er sjaldgæf í Bandaríkjunum og hefur ekki hingað til komið upp í Vestur-Evrópu. Í Austur-Evrópu og fyrrum sovétlýðveldum er þessi lífseiga berklabaktería hins vegar hátt í 20% af erfiðustu tilfellunum.

Það sem veldur sérstökum áhyggjum er að þessi nýja gerð berklabakteríu leggst sérstaklega þungt á þá sem fyrir eru eyðnismitaðir og því óttast menn að hún geti enn aukið á erfiðleika á vanþróuðustu svæðum í Afríku og öðrum hrjáðum svæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×