Lífið

Flugslysið á Sri Lanka efniviður nýrrar bókar

Óttar Sveinsson Næsta umfjöllunarefni hans í Útkalls-bókaflokknum er flugslysið á Sri Lanka árið 1978 þegar átta Íslendingar létu lífið og fimm komust af.
Óttar Sveinsson Næsta umfjöllunarefni hans í Útkalls-bókaflokknum er flugslysið á Sri Lanka árið 1978 þegar átta Íslendingar létu lífið og fimm komust af. MYND/GVA

Bókin er helguð minningu þeirra sem fórust, segir rithöfundurinn og blaðamaðurinn Óttar Sveinsson sem er þessa dagana að skrifa þrettándu Útkalls-bók sína. Viðfangsefni Óttars að þessu sinni er flugslysið á Sri Lanka árið 1978. Þá fórst Flugleiðavél sem var í pílagrímaflugi á milli Mekka og Indónesíu. Vélin fórst þegar hún átti að millilenda á Sri Lanka.

Alls létust 175 farþegar frá Indónesíu og átta Íslendingar sem voru í áhöfn vélarinnar. Fimm Íslendingar komust hins vegar lífs af og 74 aðrir.

Ég byggi bókina upp á samtölum við þá sem komust af og sömuleiðis þá sem voru í áhöfninni sem beið á Sri Lanka, segir Óttar, en önnur Flugleiðaáhöfn átti að taka við af hinni á Sri Lanka. Óttar hefur einnig rætt við fjölda annarra sem tengjast þessum atburði á einn eða annan hátt.

Í bókinni Ísland í aldanna rás eftir Illuga Jökulsson er greint frá því að í fyrstu hafi verið talið að slysið mætti rekja veðurs. Síðar hafi orsakir slyssins verið raktar til þess að aðflugstæki hafi verið vitlaust stillt. Flugvélin var of lágt á lofti í aðflugi af þessum sökum og skall niður á kókoshnetuplantekru einum og hálfum kílómetra frá flugbrautinni. Vélin þeyttist um 400 metra eftir jörðinni, brotnaði í þrennt og tveir af fjórum hreyflum rifnuðu af. Eldur kviknaði í nokkrum hlutum flaksins. Eftirá var flakið svo illa útleikið að með ólíkindum þótti að nokkur skyldi hafa komist lífs af.

Óhætt er að fullyrða að bók Óttars eigi eftir að vekja mikla athygli þegar hún kemur út í byrjun nóvember, enda muna margir eftir flugslysinu á Sri Lanka. Það er auðvitað mismunandi hvernig fólk man eftir þessu. Því er hins vegar ekki að neita að margir sem ég hef rætt við af þessu tilefni muna vel hvar þeir voru staddir þegar fréttir af slysinu bárust, rétt eins og með 11. september, morðið á Kennedy og fleiri atburði, segir Óttar Sveinsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.