Innlent

Óánægja með frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra

MYND/Vísir

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur ekki samþykkt frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra um Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Óánægja er innan flokksins með hvernig staðið var að kynningu frumvarpsins en málið var rætt á þingflokksfundi nú undir kvöldið.

Á fundi þingflokksins var frumvarp Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra rætt. Frumvarp iðnaðarráðherra felur í sér sameiningu Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar í eina stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem staðsett verður á Sauðárkróki. Iðnaðarráðherra kynnti frumvarpið á sérstökum blaðamannafundi áður en afstaða stjórnarflokkanna lá fyrir.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði eftir þingflokksfundinn að málið hefði verið rætt á fundinum. Þingmönnum þætti vinnubrögð Valgerðar ekki eðlileg enda væri hefðin sú að málin væru fyrst afgreidd úr stjórnarflokkunum áður en þau væru kynnt.

Frumvarpið hefur verið samþykkt innan þingflokks Framsóknarflokksins en samkvæmt heimildum NFS eru þó skiptar skoðanir um málið innan hans. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins afgreiddi ekki frumvarpið á þingflokksfundinum. Arnbjörg vill ekki fullyrða að málið verði samþykkt óbreytt en telur þó líklegt að það verði samþykkt í einhverri mynd. Hún segir þingmenn ósátta við það að ekki sé nógu mikil áhersla á byggðarmál í frumvarpi iðnaðarráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×