Lífið

Svanhildur heimsótti Opruh

Svanhildur Hólm Valsdóttir verður væntanlega í forgrunni þegar sjónvarpsdrottningin Oprah Winfrey gefur Íslandi gaum í þætti sínum í liðnum Oprah Takes You Around the World á vormánuðum. Eins og alþjóð veit voru útsendarar Opruh á Íslandi nýlega að afla efnis um Ísland og íslenskar konur sem Ophra hyggst nota þegar hún mun fræða allar þær milljónir sem fylgjast með þætti hennar um land íss og elda og valkyrjurnar sem það byggja. Erindrekar Ophru ræddu við nokkrar íslenskar konur áður en hafist var handa við tökur hér á landi. Svanhildur hefur greinilega uppfyllt þær kröfur sem Oprah gerir til þeirra kvenna sem hún fær til að leggja sér lið í þessum innslögum þar sem henni var flogið til Bandaríkjanna þar sem hún sótti höfuðstöðvar Opruh heim og fór í viðtöl. Svanhildur er nýkomin heim aftur og sagði frá ferðalagi sínu í Ísland í bítið á Stöð 2 í gærmorgun og lýsti því fjálglega hversu risavaxið fyrirtæki hefur orðið til í kringum persónu Ophru. Sjálf kallar Svanhildur ekki allt ömmu sína þegar kemur að sjónvarpi en hún hefur bæði stýrt Kastljósinu á RÚV og Ísland í dag á Stöð 2 með glæsibrag. Hún sagði það þó hafa verið undarlega tilfinningu að vera komin hinum megin við borðið í spor viðmælandans í þætti sem er umfangsmeiri en öll starfsemi Ríkisútvarpsins samanlögð.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.