Erlent

Útilokar ekki beitingu hervalds

George W. Bush Bandaríkjaforseti segist ekki útiloka neitt þegar kemur að því að koma í veg fyrir að Íranar komi sér upp kjarnorkuvopnum. Hann sagði í sjónvarpsviðtali við ísraelska sjónvarpsstöð að fyrst og fremst vildi hann notast við diplómatísk samskipti en ef það brygðist væru aðrir kostir í boð. "Beiting valds er síðasti kostur fyrir hvaða forseta sem er. Þú veist að við höfum beitt valdi í nýliðinni fortíð til að tryggja land okkar," sagði Bush, sem lýsti ánægju með að Alþjóða kjarnorkumálastofnunin hefði lýst verulegum áhyggjum af kjarnorkuáætlun Írana. Íranar rufu í vikunni innsigli í kjarnorkuveri sínu í Isfahan og ætla sér að hefja auðgun úraníums á nýjan leik. Auðgun úraníums er nauðsynleg til að framleiða kjarnorkuvopn en Íranar segjast einungis ætla að nota orkuna í friðsamlegum tilgangi. Um það ríkja efasemdir í alþjóðasamfélaginu, einkum meðal Bandaríkjamanna og Ísraela. Hafa Vesturlönd reynt að semja við Írana um að hætta við auðgun úraníums og fá bætur eða betri viðskiptasambönd í staðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×