Erlent

Biðlistar í kristna einkaskóla

Langir biðlistar eru við meira en helming allra kristnu einkaskólanna í Danmörku. Í suma þarf að skrá börnin strax við fæðingu til að þau eigi möguleika á að komast inn þegar skólaaldri er náð. Þrjátíu og sex kristnir einkaskólar eru í Danmörku og Anne Marie Poulsen, framkvæmdastjóri samtaka kristinna einkaskóla, segir í Berlingske Tidende í dag að margra ára biðlisti sé við þá flesta. Hún bendir þó á að milli sextíu og áttatíu prósent nemendanna komi frá heimilum sem ekki telji sig kristin. Henning Höggild, skólastjóri Markúsarskólans í Esbjerg segir foreldra barnanna velja kristinn skóla fyrst og fremst vegna agans og skólastefnunnar. Börnin læri að taka tillit hvert til annars og ekkert einelti sé liðið. Einnig hafi það áhrif að fáir nemendur séu í hverjum bekk. Foreldrarnir standi í þeirri trú að mikill agi og áhersla á náungakærleik geti komið í veg fyrir að börnin lendi á villigötum síðar í lífinu og því skipti það þá ekki máli hvort þeir deili trúnni á Guð með kennurunum eða ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×