Innlent

Sundabraut fyrir sölu Símans

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður söluandvirði Símans meðal annars varið til þess að byggja nýtt hátæknisjúkrahús og til að leggja nýja Sundabraut frá Sæbraut að Vesturlandsvegi og stytta þannig leiðina út úr Reykjavík. Talið hefur verið að lagning Sundabrautar geti kostað um tíu milljarða og nefnt hefur verið að nýtt hátæknisjúkrahús geti kostað á bilinu tuttugu til tuttugu og fimm milljarða króna. Andvirðinu af sölu Símans verður einnig varið til að greiða niður skuldir ríkisins og byggja upp fjarskiptaþjónustu á landsbyggðinni. Stjórnarflokkarnir ræða nú sín á milli um hvernig verja eigi þeim peningum sem fengust fyrir Símann eða 66,7 milljörðum króna. Þeir ætla að kynna niðurstöður sínar áður en þing kemur saman í haust samkvæmt því sem fram kemur í viðtali við Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra í Fréttablaðinu í dag. Þingflokkar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ákváðu á sínum tíma þegar ákveðið var að selja Símann að hluta andvirðisins yrði varið til að byggja upp fjarskiptaþjónustu á landsbyggðinni. Meðal þess sem búast má við að ráðist verði í er stækkun móttökusvæðis GSM-kerfisins og fjölgun á háhraða nettengingum til heimila á landsbyggðinni. Ekki er ljóst hversu miklum fjármunum verður varið til hvers þeirra verkefna sem ákveðið hefur verið að ráðast í en það ætti að liggja fyrir á næstu dögum og vikum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×