Innlent

Amfetamínframleiðsla á Íslandi

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli telur öruggt að amfetamín sé framleitt hér á landi með skipulögðum hætti. Hann segir vísbendingar um að erlend glæpasamtök séu að ná hér fótfestu. Lithái sem var tekinn í Leifsstöð með tvær flöskur af brennisteinssýru í vikunni, hefur verið ákærður fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni. Lithái á þrítugsaldri var í gær ákærður fyrir að hafa komið með tvær flöskur af brennisteinssýru til landsins á mánudag. Hann hefur verið úrskurðaður í farbann. Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, segir að efnin hafi verið í tveimur áfengisflöskum og það var ekki fyrr en eftir mjög ýtarlega leit að tollverðir áttuðu sig á því að eitthvað grunsamlegt var á ferðinni þar sem flöskurnar þóttu of þungar. Ekki mátti sjá á flöskunum að átt hefði verið við innsiglin. Við athugun á Keflavíkurflugvelli fékkst ekki fíkniefnasvörun við innihaldi flasknanna og var það sent til greiningar á Rannsóknarstofu Háskólans í lyfjafræði. Þar tók þrjá daga að greina innihaldið. En er víst að nota hafi átt brennisteinssýruna til amfetamínsframleiðslu. Jóhann telur tilganginn ekki vera annan en að nota til amfetamínframleiðslu og það er alveg ljóst að hans mati að ólöglegur tilgangur lægi að baki innflutningnum. Jóhann segist geta fullyrt að amfetamín sé framleitt hérlendis en segir að þetta sé í fyrsta sinn sem ákveðnar vísbendingar tengja erlenda aðila við framleiðsluna. Jóhann segir fróðlegt að sjá hvernig tekið verði á málinu hjá dómstólum þar sem það er fyrsta sinnar tegundar. Þá segir Jóhann fundinn benda til þess að tengsl Íslands við erlend glæpasamtök hafi verið að styrkjast. Skýring Litháans er ótrúverðug en hann segist hafa keypt flöskurnar sem áfengisflöskur í Póllandi í góðri trú. Ef það er satt má hann þakka tollvörðum lífsbjörgina þar sem sýran er banvæn þeim sem neyta hennar. Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í klínískri lyfjafræði, segir virkilega varhugavert að flytja brennisteinssýru í handfarangri flugvéla. Ef sýran kemst í tæri við vatn myndast mikill hiti þannig lítil sprenging gæti orðið. Þá getur sýran valdið slæmum bruna á húð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×