Innlent

Klukkukerfið hentar ekki borginni

Klukkukerfið sem tekið var í notkun á Akureyri í gær, er ekki fýsilegur kostur fyrir Reykjavíkurborg segir formaður framkvæmdaráðs borgarinnar. Hann segir að stöðumælarnir í Reykjavík séu settir upp til hagsbóta fyrir kaupmenn. Árstekjur Bílastæðasjóðs í Reykjavík eru tæpur hálfur milljarður en að sögn Önnu Kristinsdóttur, borgarfulltrúa og formanns Framkvæmdaráðs, eru tekjur af sömu starfsemi á Akureyri milli 15 og 20 milljónir. Þá eru tekjur Bílastæðasjóðs í Reykjavík notaðar í rekstur sjóðsins sem og byggingu og rekstur bílastæðahúsa í borginni sem nú eru orðin sex. Anna segir það ekki vera neina spurningu að halda áfram með stöðumæla í Reykjavík því með einhverjum hætti verði að tryggja það að þeir sem eru að sækja í miðborgina hafi möguleika á að fá skammtímastæði. Anna segir jafnframt að klukkukerfi sé ekki vænlegt kerfi fyrir borgina. Anna segir að með klukkukerfinu á Akureyri hafi bærinn verið að reyna að fá betri nýtingu á stæðin en að ekki sé þörf á því í Reykjavík. Á gjaldvæði 1 í borginni, sem er dýrasta gjaldsvæðið í borginni, er yfir 90% nýting á stæðunum. Hún segir stöðumælana vera í hag verslunarrekenda í miðbænum því með gjaldskyldunni er hægt að koma í veg fyrir að fólk leggi í stæði allan daginn. Þannig séu mælarnir í hag verslunarrekenda sem séu ánægðir með fyrirkomlagið en verið er að vinna að nýju bílastæðahúsi ofarlega á Laugarveginum sem komi til með að þjóna fjölmörgum viðskiptavinum verslana við götuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×