Innlent

Rammaskipulag um slippsvæðið

Byggð verður samfelld frá Ægisgarði að Grandagarði í Reykjavík, samkvæmt lokatillögu að nýju rammaskipulagi um Mýrargötu-slippsvæðið sem kynnt var í dag. Gert er ráð fyrir allt að 500 íbúðum og 15 þúsund fermetrum af atvinnuhúsnæði. Lokatillaga að rammaskipulagi fyrir Mýrargötu-slippsvæðið var kynnt á opnum fundi í húsi Bæjarútgarðarinnar við Grandagarð, en þegar er verið að vinna að deiliskipulagi á einstökum reitum. Svæðið er gamalt iðnaðarsvæði sem liggur miðsvæðis og eru mikil verðmæti talin fólgin í því að byggja það upp og styrkja þar með miðborgina. Ráðgjafahópur hefur unnið að tillögunni fyrir Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir undanfarið ár og hefur megináhersla verið lögð á að skapa heilsteypt hverfi í tengslum við höfnina og miðborgina. Samkvæmt rammaskipulaginu verða á milli 400 og 500 íbúðir á svæðinu og 15 þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði og m.a. þarf að leggja stokk undir Mýrargötu fyrir bílaumferð. Þannig yrði byggð samfelld frá Ægisgarði að Grandagarði, norðan nýrrar Mýrargötu, og er áætlað að það kosti um tvo milljarða króna að gera landið byggingarhæft. Richard Briem, verkefnastjóri fyrir rammaskipulagið, telur að hægt væri að hefja byggingaframkvæmdir árið 2008. Hann segir að ef vel takist til gæti þetta orðið mjög lífvænlegt svæði með mörgum íbúum. Aðdráttarafl fyrir fólk yrði einnig mikið, m.a. vegna sjóminjasafnsins í gamla búrhúsinu, listasafnsins og bókasafnsins við Tryggvagötu, að ónefndu hafnarsvæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×