Erlent

Lýsir yfir neyðarástandi í ríkjum

Georg Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir neyðarástandi bæði í Texas og Louisiana vegna komu fellibylsins Rítu. Þung umferð og skortur á mat og bensíni hamlar þeim gífurlega fjölda fólks sem reynir nú að flýja heimili sín við Mexíkóflóa vegna fellibylsins. Talið er að yfir ein milljón manna sé að reyna að yfirgefa svæði þar sem talið er að Ríta muni ganga yfir. Aron Pálmi Ágústsson, íslenskur drengur sem sætt hefur refsivist í Bandaríkjunum í átta ár, býr í borginni Beaumont í Texas. Hann hefur reynt að fá leyfi til að yfirgefa borgina síðan í fyrrdag en sökum skilorðs síns reyndist honum erfitt um vik. Þegar fréttastofan náði tali af Aroni fyrir hádegi í dag óttaðist hann um líf sitt og taldi að ef leyfið kæmi yrði það um seinan þar sem allir nágrannar hans voru löngu farnir. Aroni tókst þó fyrir tilstilli íslenska sendiráðsins í Washington að fá að yfirgefa borgina og er hann nú á leið til Austin í Texas.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×