Erlent

Kapphlaup við tímann

Íraskir þingmenn leggja nú allt kapp á að ljúka við frumvarp til stjórnarskrár landsins en frestur þeirra rennur út eftir helgi. Fjórir bandarískir hermenn létu lífið í sprengjuárás í gær. Stjórnarskrárviðræðurnar héldu áfram í gær en enn eru mörg mál óleyst. Fimm leiðtogar súnnía fóru á fund Ibrahim al-Jaafari forsætisráðherra og gerðu honum grein fyrir afstöðu sinni til ýmissa mála, sérstaklega hvort Írak eigi að verða sambandsríki, en gegn því hafa súnníar eindregið lagst. Eftir fundinn kváðust súnníarnir bjartsýnir á að stjórnarskrárgerðinni yrði lokið á mánudaginn þegar fresturinn rennur út en ítrekuðu þó að sjíar og Kúrdar yrðu að gefa eitthvað eftir af sínum kröfum ætti það að ganga. Fjórir bandarískir hermenn létust þegar sprengja sprakk í vegkanti í borginni Samarra í gær. Þá lýstu embættismenn þeirri skoðun sinni í gær að þremur sprengjuárásum í fyrradag þar sem 43 létu lífið hefði verið beint sérstaklega gegn sjíum til að kynda enn undir ófriðarbálið á milli þjóðarbrotanna í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×