Erlent

Átök á öðrum degi brottflutnings

Til alvarlega átaka kom á milli landtökumanna og hermanna í Neve Dekalim og Kfar Darom á Gaza-ströndinni í gær þegar herinn reyndi að rýma tvær sýnagógur í hverfinu. Ísraelsher réðist inn samkomuhús gyðinga í Neve Dekalim landnemabyggðinni í gær en þar höfðu 1.500 ákafir andstæðingar brottflutnings komið sér fyrir. Hermennirnir reyndu að draga mótmælendurna út en þeir sátu sem fastast og hrópuðu "guðlast, guðlast". Einn hermannanna fór á taugum og varð að bera hann út. Hann heyrðist muldra "guðlast" fyrir munni sér. Í Kfar Darom fóru vígbúnir hermenn inn um þak sýnagógu en þar mættu þeim mótmælendur sem skvettu á þá sýru, sandi og grænni leðju. Flytja þurfti sjö hermenn á sjúkrahús í kjölfarið. Palestínumenn fylgdust með atganginum úr fjarlægð. "Í fyrsta sinn get ég horft á ísraelska hermenn án þess að eiga það á hættu að verða skotinn því nú berjast þeir hverjir við aðra," sagði bóndi nokkur á Gaza. Þrátt fyrir mótspyrnuna í gær sögðu yfirvöld að brottflutningurinn gengi vel og þau byggjust við að brottflutningunum yrði lokið á þriðjudaginn, tveimur vikum fyrir áætlun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×