Erlent

Rannsakar ásakanir um stríðsglæpi

Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag hóf í dag formlega rannsókn á ásökunum um stríðsglæpi í Darfur-héraði, en þar hafa hátt í 200 þúsund manns látist í átökum sem staðið hafa í rúm tvö ár. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í mars síðastliðnum að vísa málinu til dómstólsins en honum er ætlað að rannsaka ásakanir um þjóðarmorð og alvarleg mannréttindabrot. Dómstóllin hefur undir höndum lista yfir 51 mann sem sakaður er um stríðsglæpi í héraðinu. Mennirnir hafa ekki verið nafngreindir en talið er að þeirra á meðal séu háttsettir menn innan Súdanstjórnar og súdanska hersins auk leiðtoga uppreisnarmanna. Átök brutust út í Darfur í febrúar 2003 milli uppreisnarmanna og ararbískra vígasveita hliðhollum stjórnvöldum en uppreisnamenn saka sveitirnar um að hafa nauðgað og myrt óbreytta borgara og brennt heilu þorpin í héraðinu. Alls hafa rúmlega tvær milljónir manna þurft að yfirgefa heimili sín vegna átakanna og dvelur meirihlutinn við þröngan kost í flóttamannabúðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×