Erlent

Rútan sprakk í tætlur

Að minnsta kosti 38 Nepalar biðu bana þegar sprengja sprakk undir rútu sem þeir voru farþegar í. Stjórnvöld kenna maóistum um verknaðinn. Rútan var á ferð um sveitahérað í suðurhluta landsins þegar jarðsprengjan sprakk undir henni. Svo virðist sem tilræðismaðurinn hafi falið sig á bak við tré skammt frá og sett sprenginguna af stað. Hún var svo öflug að vagninn hentist upp í loftið og lenti svo utan við veginn. 38 farþegar drekkhlaðinnar rútunnar létust og 71 slasaðist í sprengingunni. Sjúkrahús í nágrenninu gátu vart annað álaginu sem myndaðist í kjölfarið. Ríkisstjórnin hefur þegar kennt uppreisnarmönnum maóista um tilræðið en þeir hafa hvorki neitað því né játað. Enda þótt þeir kveðist ekki ráðast gegn óbreyttum borgurum hafa þeir stundum beint spjótum sínum að rútubílstjórum sem aka þrátt fyrir boð þeirra um vinnustöðvun. Ekkert slíkt boð var hins vegar í gildi nú. Maóistar hafa átt í skæruhernaði við stjórnvöld síðan 1996 sem hefur kostað 11.500 mannslíf. Þegar Gyanendra konungur tók sér alræðisvald í landinu í febrúar síðastliðnum hafa rósturnar í landinu aukist umtalsvert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×