Innlent

Sláturfé sett á gjöf

„Það er snjór yfir öllu, og við þurfum að fara að gefa sláturlömbunum,“ segir Lovísa Ragnarsdóttir, bóndi á Hemlu í Rangárvallasýslu. Lovísa er búin að senda um 140 lömb í sláturhúsið, en á 70 eftir. „Við ætlum að setja rúllu út, og reyna að komast hjá því að taka féð inn strax.“ Fæstir bændur gera ráð fyrir að þurfa að gefa sláturfé, og svona ástand getur komið sér illa fyrir bændur. Sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri var lokað í haust, en fjölgun sláturlamba er þó ekki gífurleg vegna niðurskurðar á fé í fyrra, að sögn Hermanns Árnasonar, stöðvarstjóra Sláturfélags Suðurlands á Selfossi. „Við bregðumst við þessu ástandi nú bæði með því að slátra fleiri skepnum í hverri viku og svo munum við vinna eitthvað á laugardögum til að létta á pressunni, því auðvitað er Sláturfélagið ekkert annað en félag bænda og við gerum allt sem við getum til að greiða götu þeirra,“ segir Hermann. Ágúst Rúnarsson bóndi í Vestra-Fíflholti er búinn að senda 250 lömb í slátrun, og um 200 bíða enn. „Það er ekki mjög víða á landinu sem menn geta geymt lömbin við góðar aðstæður á þessum tíma árs, nema hreinlega að taka þau inn, og þá er það er ekki alltaf við æskilegar aðstöður,“ segir Ágúst. Hann bætir því við að sauðfjárbændur verði þó að aðlagast lengri sláturtíð en áður tíðkaðist, því hún sé í hag bænda þar sem lengri sláturtíð þýði að neytendur geta keypt ferskt kjöt fram til jóla, sem aftur gefur bændum hærra verð fyrir skepnurnar. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×