Erlent

Málefnin ekki í forgrunni

Kosið verður til þings í Danmörku 8. febrúar. Eftir því sem kemur fram í könnun Gallup, sem gerð var fyrir Berlingske Tidende fyrr í vikunni heldur núverandi stjórn meirihluta sínum, og fengju borgaralegu flokkarnir 100 þingmenn og hefðu 53,8 prósent atkvæða á bak við sig, en stjórnarandstaðan fengi 75. Þetta er í samræmi við aðrar kannanir sem birst hafa. Venstre, frjálslyndur hægri flokkur, virðist nú stærsti flokkurinn í Danmörku og fengi um 32,5 prósent atkvæða. Það er aðeins meira en í kosningunum og kemur það sumum á óvart, sérstaklega þeim sem áttu von á að flokkurinn myndi líða fyrir andstöðu Dana við innrásina í Írak. Þó að Danir hafi hermenn í Írak, hefur það ekki orðið að stóru kosningamáli. Formaður flokksins, Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra, þykir af mörgum meira aðlaðandi kostur en Mogens Lykketoft, formaður jafnaðarmanna. Hafa kosningarnar meðal annars verið kallaðar fegurðarsamkeppni þeirra á milli, í stað þess að vera kosningar um málefni. Jafnaðarmannaflokkurinn er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og er honum spáð um 25,2 prósenta fylgi. Það er nokkuð minna fylgi en hann fékk í síðustu kosningum, þegar jafnaðarmenn fengu 29,1 prósent atkvæða. Þrátt fyrir að vera ekki í stjórn, hefur Danski þjóðernisflokkurinn stutt núverandi stjórnarflokka og mun líklega gera það áfram. Einnig hafa Kristilegir demókratar lýst því yfir að þeir muni styðja núverandi stjórnarflokka, en skoðanakannanir hafa ekki alliar bent til þess að flokkurinn nái manni á þing.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×