Innlent

Úhlutunin brýtur í bága

Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við þá ákvörðun umhverfisráðs Akureyrarbæjar að úthluta Samskipum lóð undir framtíðaraðstöðu á Oddeyrartanga, áður en rammaskipulagi miðbæjarins er lokið. Á íbúaþingi Akureyrarbæjar síðastliðið haust komu fram ríflega 150 tillögur frá 35 löndum að skipulagi miðbæjarins en alþjóðleg arkitektasamkeppni var haldin í tengslum við þingið. Stýrihópur, sem skipaður var í framhaldinu, ætlaði svo að leggja fram tillögu að rammaskipulagi miðbæjarins fyrir áramót. Nú hefur umhverfisráð Akureyrarbæjar hins vegar úthlutað Samskipum lóð á Oddeyrartanga sem er innan þess svæðis sem lagt var til grundvallar á íbúaþinginu. Ragnar Sverrrisson, forsvarsmaður verkefnisins „Akureyri í öndvegi“, segir að þessi úthlutun brjóti í bága við þá meginstefnu ráðsins að nýta svæðið fyrir íbúðabyggð og útivistarsvæði. Mótmælum hefur verið komið á framfæri við bæjaryfirvöld en þau svör fengist að ákvörðuninni verði ekki breytt. Þau rök sem færð hafa verið fyrir úthlutuninni, að sögn Ragnars, eru þau að lóðin sé á útjaðri umrædds svæðis og því verði þar ekki gert neitt af því sem íbúaþingið lagði til á næstu áratugum. Ragnar segir þessi rök haldlaus með öllu og lítilsvirðingu við þá sem þátt tóku í þinginu, svo ekki sé talað um þá arkitekta sem lögðu fram mýmargar tillögur um skipulagningu svæðisins. Aðspurður hvort farið verði í róttækar aðgerðir ef ekkert beytist í málinu segist hann einfaldlega vona að yfirvöldum beri gæfa til að hugsa sinn gang í málinu, áður en til hugsanlegra aðgerða komi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×