Innlent

Deilan gæti farið fyrir félagsdóm

Verkalýðsfélag Akraness ætlar að fara með deilu sína við Fang ehf. fyrir félagsdóm ef ekki nást fram kjarabætur fyrir starfsmenn fyrirtækisins. Fang sér sér um ræstingu og mötuneyti hjá Íslenska járnblendifélaginu á Grundartanga. Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélagsins, segir málið flókið en starfmenn Fangs hafi allir áður verið starfmenn járnblendifélagsins. "Síðan er þessum störfum úthýst í raun og veru og stofnað nýtt fyrirtæki í kringum það sem heitir Fang," segir Vilhjálmur en í ráðningarsamningi sem gerður var við starfsmenn 2002 er tekið fram að þegar kjarasamningur við járnblendið renni út taki við nýr kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði sem sé mun lægri en stóriðjusamningar sem nú séu í gildi. Þetta segir Vilhjálmur að hafi verið gert án samráðs við stéttafélög sem hafi samningsumboð. Vilhjálmur vill fá Samtök atvinnulífsins að samningsborðinu en segir forsvarsmenn þeirra vísa til þess að þetta sé bindandi kjarasamningur, það telur Vilhjálmur fráleitt. Hann segir að reynt verði á málið fyrir félagsdómi ef ekki náist sættir en búist er við að Ríkissáttasemjari boði til fundar í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×