Innlent

Langstærsta verkefni austfirskra verktaka

MYND/Reyðarfjörður
Tugir manna þramma nú um fjöll og firnindi Austfjarða. Þetta eru þó ekki jólasveinar heldur starfsmenn Héraðsverks að steypa undirstöður háspennulínu vegna álversins í Reyðarfirði. Þetta er langstærsta verkefni sem austfirskur verktaki hefur tekið að sér.

Að steypa litla steypuklumpa og koma nokkrum festingum í kringum hvern þeirra virðist í fljótu bragði ekki stórt verkefni. Fyrirtækið Héraðsverk á Egilsstöðum fær þó einn og hálfan milljarð króna fyrir að koma 300 slíkum klumpum í jörðina. Þeir munu bera tvær samliggjandi háspennulínur, nærri 60 kílómetra vegalengd, þá leið sem raforka Kárahnjúkavirkjunar verður flutt frá stöðvarhúsi að álverinu í Reyðafirði. Um 60 manna lið Héraðsverks vinnur þarna í myrkri og kulda jafnt á láglendi sem á fjöllum.

Það er til marks um stærð framkvæmdanna á Austurlandi að þessi eini verkþáttur er stærsta verkefni sem austfirskur verktaki hefur tekið að sér. Þó eru undirstöðurnar aðeins einn sjötti hluti af allri línulögninni sem kosta mun samtals um 9 milljarða króna.

Ef allt gengur samkvæmt áætlun þá tekur rafmagnið að streyma úr fjallinu í aprílmánuði árið 2007, eftir 1 og hálft ár. Um Fljótsdalslínu en svo nefnist háspennulínan, verður flutt mesta orka sem um getur á Íslandi, eða allt að 4.500 gígavattstundir á ári frá virkjun með uppsett afl upp á 690 megvött.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×