Innlent

Staðgreiðsluprósentan lækkar um áramótin

MYND/Hari

Staðgreiðsluprósentan lækkar um 1,01% nú um áramótin. Samtímis fellur niður bæði hátekjuskattur og eignaskattur en brottfall eignaskatts markar söguleg tímamót því hann hefur verið við lýði hérlendis frá því á 11. öld.

Þegar landsmenn fá afhenta launaseðlana fyrir janúarmánuð þá verður meira eftir í launaumslaginu til útborgunar. Minna verður dregið frá í skatta en áður. Skattbreytingar í landinu nú um áramótin verða óvenju viðamiklar að þessu sinni en sú breyting sem flestir finna sennilega mest fyrir stafar af ákvörðun Alþingis um að lækka tekjuskatt ríkisins um 1%, úr 24,75% niður í 23,75%. Tilkynning um meðalútsvar til innheimtu verður væntanlega birt á morgun en búist er við að það lækki örlítið, eða um 0,01% - úr 12,98% niður í 12,97% - vegna ákvörðunar Seltjarnarnesbæjar um að lækka útsvar. Þetta þýðir að staðgreiðsluprósentan lækkar úr 37,73% niður í 36,72%, eða um 1,01%. Persónuafsláttur hækkar um leið um 2,5% úr 28.321 upp í 29.029 krónur.

Og það verða fleiri skattbreytingar. Það er stundum haft á orði að skattar sem einu sinni eru settir á hverfi aldrei. Það er aldeilis að afsannast núna því nú er að hverfa skattur sem upphaflega var settur á landsmenn fyrir meira en 900 árum síðan, og hét þá tíund. Eignaskatturinn er að hverfa.

Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri segir þetta gamlan skatt og sumir vilji rekja hann allt aftur til ársins 1096 1097, þ.e. þegar tíundin var lögtekin í tíð Gissurar Ísleifssonar biskups og Sæmundar fróða. Þetta sé því orðinn býsna gamall gripur.

Eignaskatturinn var lengi 1,2% af eignum yfir ákveðnu lágmarki en í fyrra 0,6% af eignarskattsstofni yfir fimm milljónum króna. Fjölmennasti hópurinn sem hagnast á brottfalli skattsins eru eldri borgarar, fólk sem á stórar og skuldlausar fasteignir. Þótt skatturinn hverfi verða eignir þó áfram framtalsskyldar.

Þá er annar skattur að hverfa, hátekjuskatturinn, sérstakur viðbótartekjuskattur sem lagðist á tekjur hjóna með yfir 8,4 milljónir í árstekjur og einstaklinga með yfir 4,2 milljónir króna í árstekjur. Ríkisskattstjóri segir hann verða lagðan á í síðasta skipti á næsta ári vegna tekna á þessu ári. „Þannig að það í sjálfu sér greiðist enginn hátekjuskattur af þeim tekjum sem menn afla eftir 1. janúar næstkomandi," segir Indriði.

Hækkun persónuafsláttar um 2,5% nú um áramótin þýðir að hann fylgir hvorki launa- né verðlagsþróun. Persónuafslátturinn rýrnar því að raungildi en í því felst skattahækkun.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×