Innlent

Dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að skera mann á háls

MYND/Vísir

Karlmaður á fimmtugsaldri var dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi í morgun fyrir að skera leigubílstjóra á háls í fyrrasumar. Dómurinn hafði áður sýknað manninn en Hæstiréttur vísaði málinu aftur í hérað. Árásin sem maðurinn var ákærður fyrir átti sér stað í lok júlí í fyrra. Fórnarlambið hafði ekið honum, ásamt þremur öðrum, að Vesturgötu í Reykjavík á leigubíl sínum þegar sakborningurinn réðst á hann og skar hann á háls. Leigubílstjórinn slapp lifandi, en litlu mátti muna. Hinn ákærði var handtekinn og ákærður fyrir tilraun til manndráps, en var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr á þessu ári á þeim grundvelli að hann mundi ekkert sökum ölvunar, leigubílstjórinn sá ekki hver réðst á hann, og rannsókn lögreglu var að máti héraðsdóms svo ábótavant, að ekki var hægt að sakfella manninn gegn neitun hans. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem vísaði málinu aftur í hérað. Héraðsdómur dæmdi manninn svo í fimm ára fangelsi í morgun, auk þess sem hann skal greiða fórnarlambinu 1,3 milljónir króna í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×