Innlent

Tölvunotendur læsi þráðlausri nettengingu

Tölvunotendur verða að gæta þess að læsa þráðlausri nettengingu til að koma í veg fyrir að óprúttnir náungar geti hlaðið niður efni á þeirra kostnað og hugsanlega stolið fé úr heimabanka þeirra. Þetta segir sérfræðingur í tölvuöryggi.

Fréttir af heimabankaránum þar sem farið hefur verið inn á heimabanka fólks og peningar millifærðir af reikningum þess hafa vakið töluverða athygli. Greint var frá því í Fréttablaðinu að þjófur eða þjófar hefðu farið inn á tölvur annarra í gegnum þráðlausa nettengingu þeirra og millifært af reikningi þriðja aðila. Þannig hafi fallið grunur á saklausa aðila sem ekki gæti að sér og hafi svokallaðan router eða beini, sem sér um tengingu við Netið, ólæstan.

Því vaknar sú spurning hvort óprúttnir aðilar geti farið á svokallaða heita reiti, þar sem hægt er að tengjast Netinu þráðlaust í gegnum opinn beini, og millifært af reikningum fólks í gegnum tölvu annars sem líka er tengdur beininum.

Friðrik Skúlason tölvunarfræðingur segir að það sé aðskilinn hlutur hvernig menn verði sér út um upplýsingar fyrir heimabanka eins og notendanafn og lykilorð. Það sem menn græði á að fara inn á Netið í gegnum heita reiti eða þráðlausa tengingu í heimildarleysi sé að þeir framkvæmi millifærslu af reikningi án þess að hægt sé að sanna að þeir hafi gert það.

Friðrik varar fólk við því að hafa þráðlausa nettengingu opna ef ekki er verið að nota hana.Ef menn séu með þráðlausa tengimöguleika sem þeir leyfi hverjum sem er að koma að, eins og tilfellið sé með heita reiti, sé það gott mál. En það vilji ekki allir starfrækja heitan reit heima hjá sér og bera kostnaðirnn af gagnaflutningum annarra.

Þær upplýsingar fengust hjá bæði Símanum og Og Vodafone að opnir beinar væru ekki seldir hjá þeim og að fólk fengi svokallaðan WEP-lykil, þegar það keypti þráðlausa nettenginu, sem notaður væri til að komast inn á beininn og þar með Netið. Utanaðkomandi ætti því ekki að komast inn á nettengingu viðkomandi ef lykillinn væri rétt notaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×