Innlent

Nýtt veftímarit um stjórnmál og stjórnsýslu opnað í dag

F jármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, opnaði nýtt veftímarit íslenskra stjórnmála- og stjórnsýslufræðinga í dag, föstudag . Tímaritið er gefið út af Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og er öllum opið. Vefslóðin er www.stjornmalogstjornsysla.is

Veftímaritið mun gegna fjölþættu hlutverki fyrir íslenska stjórnmálafræði. Í því er ritrýndur hluti sem gegnir hlutverki fræðitímarits í stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, en slíkt rit hefur ekki verið til staðar hingað til. Stjórnmálum og Stjórnsýslu - veftímariti er ætlað að gefa stjórnmála og stjórnsýslufræðingum kost á að gera rannsóknir sínar aðgengilegar og auka þannig fræðilega umfjöllun. Nokkuð er um rannsóknir á þessum sviðum í dag í háskólum landsins, meðal sjálfstætt starfandi fræðimanna og hjá ýmsum stofnunum þó ávallt megi gera betur.

Þess er vænst að með útgáfu veftímaritsins munu rannsóknir á þessum fræðasviðum aukast enn frekar. Tímaritið verður öllum opið á netinu og í lok hvers útgáfuárs verður hægt að fá prentaða útgáfu af ritrýndu efni fyrir þá sem þess óska. Slík útgáfa verður jafnframt til á söfnum.

Í tímaritinu eru eftirtaldir efnisflokkar; ritrýndar fræðigreinar, greinar almenns eðlis um stjórnmál og stjórnsýslu, bókadómar, útdrættir úr lokaritgerðum háskólanema, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingatal, upplýsingar um opna fundi, námskeið og málþing á döfinni eru hverju sinni, ásamt tenglum er varða fagsvið stjórnmála og stjórnsýslufræða s.s. fræðitímarit sem aðgengileg eru á vefnum, samtök stjórnmálafræðinga o.fl. Félag stjórnmálafræðinga hefur einnig heimasvæði sitt á vefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×