Innlent

Afnám viðskiptahafta með landbúnaðarafurði hjá WTO talið ólíklegt

Verulega hefur dregið úr líkum á því að samkomulag náist um afnám viðskiptahafta með landbúnaðarafurðir á fundi Alheimsviðskiptastofnunarinnar í Hong Kong. Samningamenn Evrópusambandsins og Bandaríkjanna eru þegar farnir að skella skuldinni hvorir á aðra um að spilla fyrir samkomulagi.

Andstæðingar viðskiptafrelsis mótmæltu í Hong Kong í dag, þriðja daginn í röð. En þó að mótmælin myndi litríka umgjörð um ráðstefnusalina þá er það ekki þeirra vegna sem samkomulag um afnám viðskiptahafta er að renna út í sandinn. Evrópusambandið sakar Bandaríkjastjórn um að nota neyðarhjálp í formi matvæla sem dulinn ríkisstuðning við bandaríska bændur. Evrópusambandið þarf að verjast ásökunum um að skekkja ávaxtamarkaðinn með því að hygla fyrrum nýlendum Evrópuríkja. Fátækar þjóðir skjóta á báða fyrir að tala um frelsi í viðskiptum en niðurgreiða svo eigin framleiðslu og reisa verndarmúra gegn ódýrum vörum frá þróunarríkjum.

Varaformaður Alþjóðabankans tók undir með fulltrúum fátækra þjóða í dag og benti á að á þeim þremur dögum sem fundurinn hefur staðið hefðu ríku þjóðirnar styrkt eigin bændur um tvo milljarða dollara. Á sama tíma hefðu 300 milljónir bænda í fátækum löndum aflað sér tekna sem nema helmingi þeirrar upphæðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×